Íslendinga sǫgur — ráðstefnukall
Sautjánda alþjóðlega fornsagnaþingið verður haldið í Reykjavík og Reykholti dagana 12.–17. ágúst 2018. Yfirskrift þingsins verður Íslendingasǫgur en til að minnast þess að árið 2018 verða liðin 900 ár frá upphafi lagaritunar á Íslandi verða lög og lagaritun undirþema þingsins.
Heiðursfyrirlesarar verða:
- Carol Clover, prófessor emeritus við Háskólann í Kaliforníu, Berkeley
- Lena Rohrbach, prófessor í norrænum fræðum við Humboldt-háskólann í Berlín
- Andrew Wawn, prófessor emeritus við Háskólann í Leeds
Fyrirlestrum verður skipað undir fjögur meginþemu sem öll hafa fjölbreytt undirþemu. Það er okkur ánægja að bjóða væntanlegum fyrirlesurum að senda inn útdrætti fyrir eitthvert þeirra þema sem talin eru upp hér að neðan. Fyrirlesarar eru vinsamlegast beðnir um að senda aðeins einn útdrátt fyrir eitt undirþema.
ÞEMU
1. Uppruni og miðlun
a. Uppruni Íslendingasagna
b. Landslag og minjar
c. Handrit og textageymd
d. Listrænar viðtökur og fjölmiðlar
e. Þýðingar
Sérstök málstofa: Uppruni og miðlun
2. Listrænt gildi sagna
a. Nýjar nálganir og kenningar
b. Frásagnartækni og stíll
c. Kveðskapur; samspil bundins máls og óbundins
d. Merking og túlkun
Sérstök málstofa: Tilfinningar í Íslendingasögum
3. Heimsmynd
a. Menningarmót og menningarheimar
b. Kyn, kynvitund og kynhlutverk
c. Yfirnáttúra
d. Aðrar bókmenntagreinar
Sérstök málstofa: Framandleiki, forræði, andóf
Sérstök málstofa: Hlutverk galdurs í Íslendingasögum
4. ‘Með lögum skal land byggja’
a. Ofbeldi og átök
b. Lög og lagamenning
c. Stjórnmál og samfélag
Sérstök málstofa: Lagamenning og réttarfar á Íslandi á miðöldum
Þátttakendur geta valið um þrenns konar vettvang:
- Hefðbundnar málstofur með 3–4 stökum fyrirlestrum
- Veggspjaldakynningu
- Sérstakar málstofur með 6–8 þátttakendum.
Þátttakendur eru beðnir um að gera grein fyrir því formi sem þeir myndu helst kjósa fyrir framlag sitt (hefðbundinn fyrirlestur, veggspjald, sérstök málstofa). Vegna takmarkaðs rúms í dagskránni er ekki víst að hægt verði að uppfylla óskir allra varðandi form erinda.
Veggspjaldakynningin nær yfir öll þemu ráðstefnunnar. Þeir sem kynna veggspjöld skulu vera viðbúnir að svara spurningum meðan á veggspjaldakynningunni stendur. Sérstöku málstofurnar eru hugsaðar sem vettvangur fyrir þátttakendur til ræða um umfjöllunarefni á hnitmiðaðan hátt þar sem unnið er markvisst með ákveðið þema, hugmynd eða viðfangsefni. Þær verða leiddar af málstofustjóra og gætu falið í sér að fólk deili efni eða hugmyndum fyrirfram til að stuðla að markvissari samræðum í málstofunni. Ætlast er til að þátttakendur haldi stutta (5 mínútna) kynningu á efni sínu og/eða kenningum í upphafi málstofunnar en síðan munu umræður hefjast. Nánari upplýsingar um umfjöllunarefni sérstöku málstofanna má finna neðar á þessari síðu. Athugið að sérstakar málstofur munu fara fram á ensku.
Þau sem vilja leggja fram tillögu að erindi eru beðin um að senda útdrátt, ekki lengri en 350 orð, sem lýsir efni þess á skýran máta. Útdráttum skulu fylgja upplýsingar um nafn, stöðu, stofnun, tæknilegar þarfir, valið undirþema og form kynningar (fyrirlestur, veggspjald, sérstaka málstofu). Útdráttum skal skila rafrænt í gegnum ráðstefnuvefinn eigi síðar en 1. júní 2017.
Fyrirlestra má flytja á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku. Vinsamlegast athugið að hafa titil og útdrátt á því tungumáli sem fyrirlesturinn verður fluttur á. Hið sama gildir um veggspjöld. Hvorki verður tekið við ófullgerðum útdráttum né þeim sem falla utan þeirra þema sem koma fram hér að ofan. Hver þátttakandi getur aðeins verið með eitt erindi á ráðstefnunni (veggspjaldakynningar og sérstakar málstofur eru þar með talin). Reiknað er með að senda þátttakendum svör um miðjan október 2017.
Fyrir hönd undirbúningshópsins,
Dagskrárnefnd fornsagnaþings 2018
Aðalheiður Guðmundsdóttir
Ármann Jakobsson
Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
Emily Lethbridge
Sif Ríkharðsdóttir
Viðar Pálsson
Framkvæmdanefnd fornsagnaþings 2018
Gísli Sigurðsson
Guðrún Nordal
Haraldur Bernharðsson
Sif Ríkharðsdóttir
Svanhildur Óskarsdóttir
Fyrirspurnum um efniságrip og dagskrá ráðstefnunnar má beina til: fornsagnathing2018@hi.is
SÉRSTAKAR MÁLSTOFUR
Sérstöku málstofurnar eru hugsaðar sem vettvangur fyrir þátttakendur til ræða um umfjöllunarefni á hnitmiðaðan hátt þar sem unnið er markvisst með ákveðið þema, hugmynd eða viðfangsefni. Málstofustjóri mun hafa samband við þáttakendur og mögulega mun þáttakendum verða boðið að senda inn greinar eða tengd skjöl til að deila með öðrum þáttakendum fyrir fram eða til að fá hugmyndir um áherslur í umræðum í málstofunni sjálfri. Athugið að sérstakar málstofur munu fara fram á ensku.
Fyrirkomulag málstofanna er eftirfarandi: (1) Málstofustjóri mun hefja málstofuna á stuttri kynningu. (2) Þátttakendur munu því næst kynna framlög sín mjög stuttlega (5–6 mín). Æskilegt er að þeir hafi áður deilt efni sín á milli eða að minnsta kosti upplýst aðra í málstofunni nokkuð glögglega um ætlað framlag. (3) Þungamiðja málstofunnar er pallborðs-umræður þátttakenda undir stjórn málstofustjóra. (4) Málstofunni lýkur á fyrirspurnum og/eða athugasemdum úr sal og umræðum þátttakenda og áheyrenda.
Uppruni og miðlun
Málstofustjóri: Emily Lethbridge
Frá upphafi fornsagnarannsókna hefur fólk leitað skýringa á uppruna þeirra sem bókmennta-greinar í rituðu formi. Hver kynslóð fræðimanna hefur endurmetið röksemdir hinna fyrri og reynt að geta í þær áleitnu eyður sem varðveisla sagnanna skilur eftir sig – því engin þeirra er til í ‘frumriti’. Vitaskuld hefur afstaða fræðaheimsins til þessa efnis mótast beint og óbeint af þeirri fræðilegu nálgun sem efst hefur verið á baugi hverju sinni og einnig af þjóðfélagslegum hræringum, svo sem þjóðernishyggju.
Markmið málstofunnar er að meta hvar fræðin standa gagnvart spurningum um uppruna sagnanna, varðveislu þeirra og miðlun, nú þegar nær fimmtungur er liðinn af nýrri öld, og huga að því hvernig umræðan gæti þróast á næstunni. Hvenær hófst ritun fornsagna? Hvers vegna? Hvernig? Hver komu þar að verki? Hvað rak þau til þess? Nýlegar rannsóknir, m.a. þær sem taka mið af fjölmiðlafræði, þýðingafræði, minnisfræðum, kenningum um flutning og um munnlega geymd og þeirri auknu áherslu sem lögð hefur verið á efnismenningu og rými innan hugvísinda, hafa opnað nýja sýn á þessi viðfangsefni. Þess er vænst að slíkar nýjungar nýtist í þróttmikilli umræðu í málstofunni.
Tilfinningar í Íslendingasögum
Málstofustjóri: Sif Ríkharðsdóttir
Í ljósi þess að jafnan hefur verið talið að Íslendingasögurnar forðist tilfinningasemi og sækist þess í stað eftir ákveðnu hlutleysi í frásagnarhætti er málstofunni ætlað að kanna með hvaða hætti Íslendingasögurnar miðla tilfinningum og hvaða hlutverki tilfinningar gegna innan frásagnarramma sagnanna. Í málstofunni mætti meðal annars skoða hvernig tilfinningar eru settar fram í sögunum eða með hvaða hætti er komist hjá því að miðla þeim. Einnig munum við íhuga hvaða hlutverki tilfinningar gegna í sögunum, að hvaða leyti rannsóknir á tilfinningum gagnast við túlkun á Íslendingasögum og/eða hvaða hlutverki Íslendingasögurnar geti þjónað fyrir rannsóknir á tilfinningum og bókmenntum almennt, þ.e. að hvaða leyti geta slíkar rannsóknir gagnast alþjóðlegum rannsóknum á tilfinningalífi, miðöldum og/eða bókmenntum almennt.
Málstofunni er ætlað að hvetja til samræðu um tilfinningar og gildi þeirra fyrir rannsóknir á Íslendingasögum á gagnrýninn og markvissan hátt.
Framandleiki, forræði, andóf
Málstofustjóri: Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
Norrænir textar frá miðöldum eru vitnisburður um hið ráðandi félagslega valdakerfi og þá hugmyndafræði sem studdi það en þetta kerfi var af rituðum heimildum að dæma í stöðugri sköpun og endurnýjun. Sá skilningur sem fólk lagði í þessi kerfi fór vísast eftir sjónarhorni og breyttist í tímans rás. Í sögunum blasa við samfélög þar sem fólki er skipað á þrep í valdastiga en hann byggist á viðmiðum eins og ætterni, aðalstitlum, kyni og kyngervi, aldri, líkamlegu atgervi, trúarskoðunum, kynþætti og fleiru. Hábornir, norrænir (en ekki írskir eða af samaættum), ófatlaðir karlar með svipuð lífsviðhorf eru á vissan hátt sýndir sem eðlilegir valdhafar í Íslendingasögunum (og öðrum textum). Enda þótt valdastaða slíkra persóna sé sett fram sem hið náttúrulega má greina út frá varðveittum textum og handritum að slíkar hugmyndir voru ekki alltaf sjálfgefnar fyrir alla. Fólk sem taldi sig tilheyra valdahópum var sennilega ekki öruggt um að ráðandi þjóðfélagsstaða þeirra yrði ekki dregin í efa. Bókmenntasköpun, handritagerð og endurritun á textum voru tæki sem fólk nýtti til að styrkja hugmyndafræði og völd í sessi. Þrátt fyrir þessa viðleitni birtast persónur sem láta í ljósi ólík sjónarmið eða þjóðfélagsgagnrýni, eða eru líklegar til að valda einhvers konar usla í valdajafnvæginu, í alls kyns gervum í sögunum: óstýrilátar konur, útlendingar og fólk af öðrum kynþáttum, tröll og risar, djöflar, heiðingjar og alls kyns yfirnáttúrulegar verur. Meira að segja sjálft bókmenntakerfið var ekki stöðugt heldur í sífelldri þróun – mismunandi gerðir sagna og bókmenntagreina uxu og féllu í áliti á tímabilinu og ólíkir ritbeiðendur og hópar höfðu mismunandi áherslur. Sögur og handrit gefa þ.a.l. innsýn inn í heim þar sem hinu ráðandi þjóðfélagskerfi eða afmörkuðum þáttum þess – t.d. hegðunarboðum kirkjunnar, hamlandi kynhlutverkum og samskiptarömmum, valdastöðu gamalla fjölskyldna, undirokun eins kynþáttar á öðrum – er ekki viðhaldið á óvirkan hátt. Þvert á móti eru þessir þættir ræddir fram og til baka, gagnrýndir, dregnir í efa eða réttlættir. Í þessari málstofu verður rætt um valdaramma, framandleika, jaðarsetningu og andóf í norrænum miðaldatextum og einkum Íslendingasögum.
Fjalla mætti um eftirfarandi þemu (listinn er ekki tæmandi):
- Trúarefi
- Gagnrýni á valdastöðu sem byggist á kynþætti eða upprunalandi/-svæði
- Kynusli eða ósamþykkt samskipti kynjanna
- Viðhorf til fötlunar og líkamlegs atgervis
- Uppgangur manna eða þjóðfélagshópa sem tilheyra ekki sitjandi valdastétt
- Rígur eða togstreita milli héraða
- Hugmyndafræðileg átök
- Breytingar í bókmennta- og handritamenningu
Hlutverk galdurs í Íslendingasögum
Málstofustjóri: Aðalheiður Guðmundsdóttir
Eins og alkunna er eiga flestar Íslendingasögur að gerast frá því seint á 9. öld og fram á fyrri hluta 11. aldar, þótt þær hafi svo verið samdar og skráðar á skinn nokkrum hundruðum ára síðar, mestmegnis á 13. og 14. öld. Af þessu leiðir að sú fortíð sem þær lýsa er ekki öll sambærileg, t.d. segir í nokkrum sagnanna frá fjölkunnugu fólki sem getur jafnvel haft áhrif á framvindu sögunnar. Að auki – og einkum þó í yngri sögunum – er dulúðin ekki langt undan og birtist okkur meðal annars í yfirnáttúrlegum atburðum og vættum. Í þessum yngri sögum fer með öðrum orðum meira fyrir vættum á borð við tröll og blámenn en í þeim eldri, og meira fer fyrir fjölkunnugu fólki. Í bæði eldri og yngri sögum er þó getið um galdur af ýmsu tagi og óhætt er að segja að hugmyndum ægi þar saman; allt eru þetta þó fyrst og fremst hugmyndir sem fólk, þ.e. höfundar sagnanna og áheyrendur, höfðu um fortíðina.
Þótt Íslendingasögur geti í vissum tilvikum endurspeglað fortíðina, bæði efnislega og hugmyndafræðilega, eru þær fyrst og fremst bókmenntir. Vegna þessa er nauðsynlegt að skoða hugmyndir um galdur út frá hlutverki hans innan textans og kanna í hvaða tilgangi höfundar sagnanna grípa til hans. Gátu hugmyndir manna um galdur fortíðarinnar falið í sér skemmtigildi? Var galdurinn leið til að ræna fólk frjálsum vilja og þar með að frýja það ábyrgð? Að hve miklu leyti þjóna þessar hugmyndir framvindu sögunnar, t.d. með því að skapa aðstæður sem kalla á tiltekin viðbrögð? Í málstofunni verður fengist við hugmyndir um helstu tegundir galdurs innan Íslendingasagna, og þær ræddar út frá frásagnarfræðilegu hlutverki þeirra og áhrifum á söguþráðinn.
Lagamenning og réttarfar á Íslandi á miðöldum
Málstofustjóri: Viðar Pálsson
Í tilefni þess að 900 ár eru liðin frá upphafi lagaritunar á Íslandi með samningu Hafliðaskrár hefur lagamenningu og réttarfari á Íslandi á miðöldum verið skipað sem undirþema við meginþema þingsins, Íslendingasǫgur. Málstofunni er því ætlað að hýsa framlög um lög og réttarfar á miðöldum á Íslandi almennt, hvort sem er á þjóðveldistíma eða síðmiðöldum, en þó er sérstaklega hvatt til framlaga sem tengja þemun tvö, lög og (Íslendinga)sögur. Samband hinnar lagalegu arfleifðar Grágásar og réttarfars sagnaheims fornsagnanna, einkum Íslendinga-sagna, er auðvitað gamalt bitbein fræðimanna og á sér langa rannsóknarhefð, og hún mun nýtast sem útgangspunktur umræðna í málstofunni.
Dæmi um þemu sem framlög féllu undir:
- Munnlegur venjuréttur vs. upphaf ritaðra laga og miðstýrðs lagasetningarvalds.
- Réttarheimspeki, staðbundin og alþjóðleg.
- Handritafræði og textageymd laga og lögfræðilegs efnis.
- Lagastofnanir og stjórnskipun.
- Lagamenning kirkjunnar, sjálfstætt eða í samhengi við veraldlega lagamenningu.
- Lagamenning og réttarfar í Íslendingasögum.
- Lög, lögmennska og lögspeki sem valdatæki.
- Rannsóknarhefð og túlkun lagamenningar og réttarfars miðalda á árnýöld og í nútíma.
Viðauki við ráðstefnukall
Við viljum leggja áherslu á að sá möguleiki er fyrir hendi að þátttakendur leggi til fullskipaðar málstofur innan einhvers þema ráðstefnunnar. Málstofur með þessu sniði verða að hafa skilgreint umfjöllunarefni sem og fyrirfram ákveðna fyrirlesara. Allir þátttakendur sem hyggja á að taka þátt í málstofu skipulagðri fyrirfram verða samt sem áður að skila útdrætti í gegnum heimasíðu ráðstefnunnar. Dagskrárnefnd áskilur sér rétt til að hafna útdráttum fyrir slíkar málstofur ef þeir standast ekki þær væntingar og kröfur sem gerðar eru í ráðstefnukallinu. Fyrirfram skipulagðar málstofur skulu annað hvort hafa þrjá fyrirlesara (með hefðbundna 20 mínútna fyrirlestra) eða fylgja forskrift sérstöku málstofanna (6-8 þátttakendur). Í því tilviki verða þátttakendur að bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd málstofunnar. Dagskrárnefndin hvetur alla til að huga að jöfnum kynja- og aldurshlutföllum þegar því verður við komið.
Vinsamlegast sendið tillögur að fyrirfram skipulögðum málstofum til sagaconference2018@hi.is og takið fram efni málstofunnar, fyrirlesara og hvaða þema málstofan tilheyrir. Útdráttum hvers fyrirlesara skal skilað í gegnum heimasíðu ráðstefnunnar.